Kórar syngja inn vorið í Skálholtsdómkirkju

Kór frá tónlistarháskóla í Árósum söng í Skálholti í vetur.

Með sumarkomunni koma kórar til að syngja í Skálholtsdómkirkju hver á fætur öðrum. Hér á eftir fylgir yfirlit um tónleika sem haldnir verða í maí og fram í júní. Um er að ræða íslenska og erlenda kóra sem flytja fjölbreytilega tónlist.

Miðvikudagskvöldið 3. maí kl. 20 heldur Jórukórinn tónleika í kirkjunni og flytur fjölbreytta dagskrá undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.

Laugardaginn 6 maí kl. 17 eru svo sameiginlegir tónleikar þriggja kóra; kórs Grindavíkurkirkju, kórs Laugarneskirkju og Skálholtskórsins. Stjórnendur kóranna eru; Bjartur Logi Guðnason, Arngerður María Árnadóttir og Jón Bjarnason. Ókeypis aðangangur og allir velkomnir!

Miðvikudagskvöldið 10. maí kl. 20 verður Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar með vortónleika í Skálholti.

Laugardaginn 13. maí kl. 15 er svo komið að Karlakór Grafarvogs sem flytur dagskrá helgaða vorinu. Aðgangseyrir rennur í gluggasjóð kirkjunnar.

Daginn eftir, sunnudaginn 14. maí kemur hingað í Skálholt Karlakór KFUM og heldur hér tónleika kl. 16. Aðgangseyrir rennur að hluta til í gluggasjóð Skálholtsdómkirkju, til lagfæringa á gluggum kirkjunnar.

Laugardaginn 20. maí kl. 16 er Kammerkór Reykjavíkur undir stjórn Sigurðar Bragasonar og Kór Árbæjarkirkju undir stjórn Krisztína Kalló Szklenárné. Flutt verður tónlist eftir Sigurð Bragason. Aðgangseyrir rennur í gluggasjóð kirkjunnar.

Laugardaginn 24. júní kl. 17 eru síðan tónleikar undir stjórn Guðnýjar Einarsdóttur organista. Þar koma saman 50 söngvarar og hljóðfæraleikarar.