Samstarf Skálholtsskóla og Listaháskóla Íslands

Halldór Reynisson starfandi rektor Skálholtsskóla og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands undirrita samninginn

Listaháskóli Íslands og Skálholtsskóli hafa gert með sér samstarfssamning um að vinna saman að fræðslu og rannsóknum svo og aukinni kynningu á þeirri sögu og menningu þjóðarinnar, sem órjúfanlega er tengd nafni Skálholts, með ráðstefnum, fundum, námskeiðum og útgáfu og öðru því, er fellur að hlutverki stofnananna.

Þannig veitir Skálholtsskóli starfsmönnum og nemendum Listaháskóla Íslands aðstöðu og afnot eftir því, sem við verður komið. Má þar nefna að Skálholtsskóli veitir Listaháskóla Íslands aðstöðu til fundarhalda fyrir stjórnsýslu háskólans, til funda, námskeiða og ráðstefna fyrir fræðasvið og deildir Listaháskólans. Í þessu felst endurgjaldslaus aðgangur að stofum og bókasafni. Fyrir þjónustu mötuneytis og gistiaðstöðu nýtur Listaháskóli Íslands sömu vildarkjara og kirkjulegir aðilar njóta hverju sinni.

Stjórnendur LHÍ ásamt Halldóri Reynissyni

Þá gerir Skálholtsskóli fræðimanni  á vegum Listaháskóla Íslands kleift að dvelja í Skálholti um lengri eða skemmri tíma við rannsóknastörf eftir því sem við verður komið.

Samstarfssamningur þessi er hliðstæður við samstarfssamning sem endurnýjaður var við Háskóla Íslands í fyrra.