Söfnun til viðgerðar á gluggum Gerðar Helgadóttur

Eins og fram hefur komið í fréttum þarf að fara í viðamiklar viðgerðir á steindu gluggunum eftir Gerði Helgadóttur sem prýða Skálholtsdómkirkju. Eftir ágang vatns og vinda í meira en hálfa öld eru ytri gluggarnir sumir orðnir mjög lélegir og það hefur orsakað skemmdir á sjálfum steindu gluggunum.

Einnig þarf að ráðast í sprunguviðgerðir á sjálfri kirkjunni en sprungur hafa komið í ljós sem rekja má til jarðskjálftanna sem urðu árin 2000 og 2008. Þær hafa orsakað að sprungur eru konar í mósaik altaristöflu Nínu Tryggvadóttur.

Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju var nýlega settur á stofn. Verkefni hans eru varðveisla og viðgerðir á þjóðargersemum á Skálholtsstað, meðal annars listgluggum Gerðar Helgadóttur.

Stjórn sjóðsins skipa sr.Hreinn S. Hákonarson prestur, Jón Sigurðsson fv. skólastjóri formaður og Margrét Sigurðardóttir sérfræðingur hjá Sambandi ísl.sveitarfélaga.

Hér skrifar stjórn Skálholts, Kristófer Tómasson, Drífa Hjartardóttir, formaður og Þorvaldur Karl Helgason undir skipulagsskrá Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju. Í stjórn eru, standandi frá vinstri: sr. Egill Hallgrímsson, varamaður, Jón Sigurðsson, formaður, Margrét Sigurðardóttir, sr. Hreinn Hákonarson, og Jóhann Björnsson, varamaður. Á myndina vantar Ragnhildi Benediktsdóttur,varamann.

Á sínum tíma var ástand glugganna kannað og komu í ljós skemmdir. Í framhaldi af því var haft samband við Stefán Oithmann sá sem rekur Oithmann fyrirtækið í Linnich sem gerði gluggana til að koma og skoða hvað gera þyrfti. Hann kom árið 2010 og gerði úttekt á ástandi glugganna. Úttektin sýndi að mikil þörf var á skjótum viðbrögðum vegna skemmda bæði í trérömmum umhverfis gluggana, en sérstaklega vegna skemmda á þeim sjálfum. 2014 kom hann aftur í tengslum við málþing sem Skálholtsfélag hið nýja stóð fyrir um ástand glugganna. Niðurstaðan er að ódýrara sé að senda alla gluggana til Þýskalands en að flytja allan búnað og mannskap til Íslands og gera við hér. Áætlaður heildarkostnaður við gluggaviðgerðina er um 50 m.kr. Þá eru eftir aðrar viðgerðir á kirkjunni, s.s. sprunguviðgerðir og er áætlað að þær hlaupi á tugmilljónum.

Af þessu er ljóst að tími er kominn á stórfelldar viðgerðir á Skálholtsdómkirkju og ætti ekki að koma á óvart, því engar meira háttar viðgerðir hafa farið fram á kirkjunni allt frá vígslu hennar 1963. Þessar þjóðargersemar liggja undir skemmdum og viðgerðir þola ekki bið og er Verndarsjóðnum ætlað það hlutverk að gera þar bragarbót

Verndarsjóðurinn tekur á móti frjálsum fjárframlögum, sem með kvittun eru frádráttarbær frá skatti, til þessara þjóðargersema.

Upplýsingar um reikning sjóðsins eru eftirfarandi:

0152-15-380808,

kt. 451016-1210