Sumarkvöld í Skálholti: Sveinn Einarsson f.v. þjóðleikhússtjóri segir frá því þegar kista Páls biskups fannst

Sveinn Einarsson f.v. Þjóðleikhússtjóri

Einhver merkastir fornleifafundur Íslandssögunnar, verður umfjöllunarefnið á Sumarkvöldi í Skálholti 12. júlí n.k. en þá kemur Sveinn Einarsson f.v. Þjóðleikhússtjóri í Skálholt og segir frá því þegar kista Páls biskups Jónssonar fannst árið 1954.

Það var Jökull Jakobsson, seinna rithöfundur sem fann tilhöggvinn stein 23. ágúst þetta ár á grunni tilvonandi dómkirkju. Hann ásamt  Sveini Einarssyni og fleiri ungum mönnum aðstoðuðu við fornleifarannsókn undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárn á kirkjustæðinu í Skálholti þar sem til stóð að reisa hina nýju dómkirkju.

Þegar betur var að gáð kom í ljós að steinninn sem Jökull hafði fundið var mikið bjarg tilhöggvið af manna höndum – kista Páls biskups var fundinn eftir að hafa legið í jörðu í 743 ár eða frá því að hann dó árið 1211. Það var svo staðfest þegar kistan var opnuð að þar lágu bein Páls biskups, en fjórir ungir menn þeir Sveinn og Jökull, Jón bróðir Jökuls og Sveinbjörn Björnsson síðar Háskólarektor, ýttu níðþungu lokinu ofan af kistunni.

Sveinn segir frá þessum merka atburði og gengur um staðinn þar sem kistan fannst og hefst dagskráin kl. 20 og stendur til u.þ.b. 21:30. Hún er ókeypis. Á eftir er kaffiterían í Skálholtsskóla opin og er hægt að kaupa þar veitingar.

Í Tengivagninum á rás 1 var leikin upptaka frá atburðinum 1954 sem heyra má hér:

http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/tengivagninn/20170711  

Umfjöllin hefst á 14:40

Kista Páls biskups í kjallara Skálholtsdómkirkju