Sumartónleikar í Skálholti 2017

Frá Sumartónleikum 2016

Sumartónleikar í Skálholt 2017 hefjast 8. júlí og standa til 6. ágúst. Að venju er dagskráin fjölbreytt og má nefna að fyrstu helgina 8.-9. júlí flytur Sönghópurinn Hljómeyki Ljósbrot eftir John Speight en verkið er innblásið af gluggum Gerðar Helgadóttur. laugardaginn 8. júlí flytur sr Karl Sigurbjörnsson erindi um gluggana en eins og kunnugt er stendur nú yfir söfnun til að kosta viðgerð þeirra.

Af öðrum viðburðum má nefna barnakór frá Ástralíu, Nordic Affect með tónlist staðartónskáldsins Maríu Huldar Markan, Barokksveitina Camerata Öresund, Barokkbandið Brák og tónleika helgaða minningu Helgu Ingólfsdóttur semballeikara og stofnanda Sumartónleikanna.

Annars má sjá dagskrána á heimasíðu Sumartónleikanna sbr. http://www.sumartonleikar.is/dagskraacute.html

Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið starfandi síðan 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtsdómkirkju í 5 – 6 vikur á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu. Hvert sumar sækja milli 3000 og 4000 gestir hátíðina, en þeim fer fjölgandi með hverju ári. Það má því segja að hátíðin sé einn stærsti menningarviðburður sem fram fer á Suðurlandi að sumrinu til.

Eitt helsta markmið hátíðarinnar er að stuðla að nýsköpun íslenskrar kirkjutónlistar. Tónverkin sem frumflutt hafa verið á hátíðinni nálgast 200, eftir öll helstu tónskáld Íslands. Flestir helstu tónlistarmenn þjóðarinnar hafa komið að starfi hátíðarinnar á starfsferli sínum en jafnframt hafa fjölmargir virtir erlendir flytjendur sótt Sumartónleika heim ár hvert. Hátíðin hefur skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar.

Framkvæmdastjóri: 
Guðrún Birgisdóttir
sumartonleikar.skalholt@gmail.com, s. 8240638

Stjórn:
Margrét Bóasdóttir (formaður)
Kolbeinn Bjarnason
Tryggvi M. Baldvinsson