Uppstigningardagur í Skálholtsdómkirkju

Á uppstigningardag, þann 17. Maí 2012, eru liðin 100 ár frá fæðingu Róberts Abrahams Ottóssonar, þess mikla tónlistarmanns. Skálholtsstaður og Skálholtskórinn ætlar að þessu tilefni að efna til minningarhátíðar í Skálholtsdómkirkju um þennan merka mann á fæðingardegi hans. Hátíðarguðsþjónusta verður kl. 14:00 með tónlist útsettri af R.A.O. og einnig tónlist sem Skálholtskórinn söng á Skálholtshátíðum í tíð Róberts. Eftir messuna verður svo kirkjukaffi í Skálholtsskóla og að því loknu verður minningarsamkoma í tali og tónum sem hefst kl. 16:15 í kirkjunni.

Dr. Róbert Abraham Ottósson var einn af virtustu og áhrifamestu tónlistarmönnum á Íslandi frá upphafi. Hann kom til landsins árið 1935 og hafði mikil áhrif á margar kynslóðir íslenskra tónlistarmanna. Hann kenndi og stjórnaði mörgum kórum og hljómsveitum. Hann stjórnaði t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar, stofnaði og stjórnaði Söngsveitinni Fílharmóníu og kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík. Róbert Abraham gegndi einnig ýmsum embættum meðal annars var hann Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og dósent í litúrgíu við guðfræðideild Háskóla Íslands. Árið 1963 stofnaði dr. Róbert Abraham Skálholtskórinn og stjórnaði honum í 10 ár.