Vigdís í Skálholti; gróðursetning og endurheimt votlendis

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands heimsótti Skálholt 5. júlí s.l. ásamt fjölskyldu og gróðursetti þrjár birkiplöntur auk þess sem hún skoðaði votlendið í Skálholti sem var endurheimt í fyrra.

Til stóð að Vigdís tæki fyrstu skóflustunguna að endurheimt votlendisins fyrir neðan Skálholtsstað á Skálholtshátíð 2016 en hún forfallaðist og var því tilgangur heimsóknarinnar að líta á hvernig til tókst. aðgerðin að endurheimta mýrina fyrir neðan Skálholtsstað var fjármögnuð úr Auðlind, minningarsjóði Guðmundar Páls Ólafssonar, en Vigdís og Þröstur Ólafsson eru þar í forsvari.

Vigdís gróðursetti þrjár eðalbirkiplöntur af yrkinu Emblu sem voru gefnar voru af garðyrkjustöðinni Hvammi II í Hrunamannahreppi að þessu tilefni. Tók hún þar upp þráðinn þar sem frá var horfið á þeirri tíð þegar hún var forseti og heimsótti byggðir landsins. hvar vetna þar sem hún kom í opinbera heimsókn gróðursetti hún þrjár birkiplöntur; eina fyrir stúlkur, eina fyrir drengi og eina fyrir ófædd börn framtíðarinnar.

Með í för var heimilisfólk í Eystra-Geldingaholti en þar dvaldi Vigdís mörg sumur í sveit sem barn.