top of page
Altaristafla.png

Altaristafla Nínu Tryggvadóttur

Mósaíkmyndin í Skálholtsdómkirkju er eftir listakonuna Nínu Tryggvadóttur (1913-1968). Altaristaflan er eftir Nínu Tryggvadóttur og var sett upp í kirkjunni árið 1966, 3 árum eftir vígslu hennar.

 

Nína gaf sér góðan tíma til að vinna myndina, kom oft í Skálholt til að fá innblástur og var í nánum samskiptum við Sigurbjörn Einarsson biskup varðandi endanlega útfærslu verksins. Til eru skissur sem sýna þróunarferlið en sjálf skrifaði Nína meðal annars meðan á því stóð: „Mér finnst að þessi mynd sem táknar Krist birtast sem einskonar anda í íslensku landslagi muni verða fallegust á vegginn. Hugmyndin er að mynd Krists óskýr eða hálf loftkennd birtist á sumarlandslagi og held ég að það verði betra en mjög formföst mynd.“

 

Mósaíkmynd Nínu í Skálholtskirkju er gersemi sem vekur mikla athygli gesta. Tæknin við verkið líkir eftir pensilstrokum og er líkt að kórgafl kirkjunnar opnist og Kristur standi fyrir utan í landslaginu og bjóði fólki að koma til sín. 

Nína Tryggvadóttir var fædd á Seyðisfirði en fluttist síðar til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1933 hóf Nína að læra listmálun hjá Finni Jónssyni og Jóhanni Briem listmálurum og 1935 flutti hún til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði listnám til ársins 1939. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík árið 1942, níu árum áður en Listasafn Íslands var stofnað.

 

Á árunum 1943-1946 stundaði Nína listnám hjá listmálaranum Hans Hofmann í New York. Hún bjó einnig um tíma í London ásamt eiginmanni sínum, Alfred L. Copley, áður en þau fluttu endanlega til New York árið 1959. Hún gerði fjölmörg listaverk á ferli sínum, einkum vatnslitamyndir, en einnig mósaíkmyndir fyrir Hótel Loftleiðir og Landsbankann. 

 Lesa má nánar um Nínu Tryggvadóttur í ritinu „Andans konur“ sem gefið var út af Listasafni Árnesinga árið 2009. 

bottom of page