Gluggar Gerðar Helgadóttur
Gerður Helgadóttir (1928-1975) listakona hannaði glugga Skálholtsdómkirkju, en hún hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um steinda glugga í hinni nýju kirkju, þá var Gerður rétt um þrítugt. Þýska glerlistaverkstæðið Oidtmann vann gluggana sem eru 25 talsins.
Gluggarnir eru í abstrakt stíl og hafa allir ákveðna merkingu sem byggir á djúpt hugsuðu kerfi kirkjutákna og talna, en Gerður studdist við táknfræði kirkjunnar, inntak þess og tilgang við hönnun glugganna. Skipta má gluggunum upp í tvo flokka, kirkjusögulega og trúarlega þar sem táknfræði talna og forms talar sínu máli. Kirkjusögulegu gluggarnir eru tengdir ýmsum Skálholtsbiskupum svo sem Ísleifi Gissurarsyni (1056-1080), fyrsta biskupnum í Skálholti, syni hans, Gissuri Ísleifssyni (1082-1118), Klængi Þorsteinssyni (1152-1175) sem reisti kirkju á staðnum og Páli Jónssyni (1195-1211). Tveir gluggar eru helgaðir heilögum Þorláki biskupi Þórhallssyni (1178-1193).
Árið 2019 gaf Skálholtsfélagið út bækling um myndglugga Gerðar Helgadóttur með skýringum eftir Karl Sigurbjörnsson. Þar má lesa um skýringar á myndefni einstakra glugga sem byggðar eru á skýringum listakonunnar sjálfrar. Bæklingurinn er til sölu í Skálholtskirkju og renna tekjur af honum til verndar Skálholtskirkju.
Gerður Helgadóttir var fædd að Tröllanesi í Norðfirði en fluttist til Reykjavíkur ásamt foreldrum sínum níu ára gömul. Gerður hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands þar sem hún lærði undirstöðuatriði í teikningu, en samhliða því hóf hún að móta í leir og síðar að höggva í grjót í Laugarnesi í Reykjavík. Hún settist að í París þar sem hún kom sér upp vinnustofu í listamannahverfi borgarinnar. Hún átti mjög farsælan feril sem listamaður og skildi eftir sig mörg listaverk sem öll setja sterkan svip á þær byggingar sem þau prýða. Auk glugganna í Skálholti má nefna steinda glugga Hallgrímskirkju í Saurbæ og Kópavogskirkju, mósaíkmynd á Tollstöðvarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík og bronsmyndir í Landsbankanum, Hafnarfirði og í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Gerður tók þátt í yfir 50 sýningum á aðeins 30 ára listferli sínum og hélt sjálf 15 einkasýningar víðs vegar um heim. Gerður lést árið 1975 aðeins 47 ára gömul.
Elín Pálmadóttir ritaði ævisögu Gerðar sem kom út árið 1985 undir heitinu Gerður: Ævisaga myndhöggvara. Einnig má lesa nánar um Gerði Helgadóttur í ritinu „Andans konur“ sem gefið var út af Listasafni Árnesinga árið 2009.
Viðgerð á gluggum Gerðar Helgadóttur 2018
Viðgerð hófst á gluggum Gerðar Helgadóttur haustið 2018 en þá var ljóst að gluggarnir voru illa farnir og lágu undir skemmdum.
Fulltrúar Oidtmann fyrirtækisins í Þýskalandi önnuðust viðgerðirnar en gert var við alla glugga kirkjunnar. Iðnaðarmenn dvöldu í Skálholti í nokkrar vikur við viðgerðina á gluggunum sem eru taldir ómetanlegar þjóðargersemar. Auk þess að gera við listgluggana var skipt um hlífðargler og gluggaopin lagfærð. Þegar viðgerð glugganna lauk var gert við sprungur í mósaíkaltaristöflu Nínu Tryggvadóttur.
Verkefnið var fyrst og fremst verið kostað af fjárframlögum fyrirtækja og einstaklinga og með styrk úr Húsafriðunarsjóði. Bakhjarl verkefnisins var Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju sem stofnaður var árið 2016. Verndarsjóðurinn hefur stutt dyggilega við og fjarmagnað ýmis verkefni tengd Skálholtskirkju, nú síðast nýrri lýsingu í kirkjuna og nýja kirkjuklukku í stað þeirrar sem brotnaði sumarið 2020. Næsta verkefni Verndarsjóðsins er að styðja við bókhlöðu sem komið verður upp í kjallara Gestastofu Skálholtsstaðar.
Hægt er að leggja sjóðnum lið með því að leggja inná hann. Verndarsjóðurinn er með kt. 451016-1210,og reikningsnúmer 0152 -15- 380808.