Fermingarbörn ánægð með "Fermingarfjör í Skálholti"
- Herdís Friðriksdóttir
- Mar 7
- 2 min read
Fermingarblað Morgunblaðsins sem kom út í dag inniheldur viðtöl við tvö fermingarbörn úr Kópavogskirkju. Guðrún Sigríður Sæmundsen blaðamaður ræddi við þau Þorgerði Freyju Helgadóttur og Helga Þór Atlason um trúna, fermingarundirbúning og fermingarfræðsluna. Bæði nefna þau að það besta við fermingarfræðsluna hafi verið að taka þátt í dagsferð fermingarbarnanna í Skálholt, en hópurinn tók þátt í fermingarfjöri í Skálholti í febrúar sl.
Fermingarfjörið er dagskrá sem Pétur Ragnhildarson prestur í Fella- og Hólakirkju stýrir ásamt starfsmönnum Skálholtsstaðar. Kristján Björnsson vígslubiskup leiðir börnin í sögugöngu um staðinn, þar sem þau skoða ma.a steinkistu Páls Jónssonar frá 1211 og undirgöng frá 11. öld. Jón Bjarnason kynnir orgelið fyrir börnunum með því að spila stef úr Harry Potter eða ýmis sönglög sem börnin geta sungið með. Alla jafna leyfir hann þeim líka að hlýða á Bohemian Rapsody með Queen. Bjarki og Gunnhildur á Veitingastaðnum Hvönn bjóða upp á dýrindis pizzur áður en börnin fara aftur út í ratleik þar sem þau leysa ýmsar þrautir. Eftir kyrrðarstund í kirkjunni fá börnin skúffuköku áður en haldið er heim.
Það er ánægjulegt að sjá að fermingarbörnin hafa notið þess að heimsækja Skálholt og hafa skemmt sér vel með skólasystkinum sínum, bæði við leik en einnig við að kynnast sögu staðarins og tónlistinni. Í viðtalinu við Þorgerði kemur fram að henni hafi þótt ótrúlega ótrúlega gaman og fræðandi að fara í fermingarferð í Skálholt. Í greininni segir að hún og skólasystkini hennar hafi fengið að skoða þennan sögufræga stað Íslendinga þar sem Skálholtsdómkirkjan stendur tignarleg. Í sögugöngunni fengu þau að skoða legsteina ýmissa biskupa, fornleifasvæði og Þorláksbúð sem er eftirmynd skálans á Keldum. Eftir gönguna fóru þau svo að fara í leiki.
Í viðtalinu við Helga kemur fram að dagsferðin í Skálholt hafi staðið uppúr í fermingarfræðslunni, en þar fengu krakkarnir að njóta þess að ganga um staðinn og fá innsýn í mannlíf og persónur sem áður voru þar. Í Skálholtsdómkirkju stendur altari Brynjólfs Sveinssonar biskups sem var smíðað var árið 1673. Þar eru einnig gersemar eins og ljósakrónan sem einnig er sögð ljósahjálmur Brynjólfs Sveinssonar og predikunarstóllinn, en þar hafa ófáir prestar staðið, m.a. hinn mikli predikari Jón Vídalín biskup. Helgi segir þó kirkjuorgelið hafa verið langflottast og eitthvað sem stóð upp úr ferðinni en magnþrunginn ómur orgelsins hafi eflaust höfðað vel til Helga þar sem hann er sjálfur nýfarinn að læra á píanó, ásláttarhljóðfæri sambærilegu orgelinu.
Fermingarfjörið hefur tekið einstaklega vel í ár, veðrið hefur leikið við þá hópa sem hafa komið og mikil ánægja með dagskrána. Hér má sjá nokkar myndir sem teknar voru þegar fermingarbörn úr Kópavogskirkju sóttu Skálholt heim.
Comentarios