Fermingarfjör er dagskrá sem boðið er uppá í Skálholti fyrir femingarbörn víðsvegar af landinu. Á mánudaginn kom 50 barna hópur úr Kópavogskirkju til að taka þátt í dagskránni. Með í för voru þau Sr. Sigurður Arnarsson, Sr. Grétar Halldór Gunnarsson og Ásta Ágústsdóttir djákni. Auk þess var ein móðir með í för Helga Ólöf Þórdísardóttir.
Fermingarbörnin mættu snemma dags í Skálholt og fengu morgunhressingu og kynningu á þeirri dagskrá sem framundan var. Pétur Ragnhildarson sóknarprestur í Breiðholti leiddi dagskrána og stýrði fermingarfræðslu og hópefli.
Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup fór með fermingarbörnin í leiðsögn um Skálholtsstað þar sem þau kynntust merkri sögu staðarins. Þau urðu að hlusta vel og læra, enda fóru þau í ratleik síðar um daginn þar sem þau áttu að svara ýmsum spurningum úr sögu Skálholtsstaðar.
Börnin fengu hádegisverð, dýrindis pizzu frá Veitingastaðnum Hvönn, en svo var komið að því að kynnast orgelinu í Skálholtsdómkirkju. Jón Bjarnason kynnti hljóðfærið og spilaði ýmis lög sem börnin kannast við, allt frá Harry Potter kvikmyndatónlist yfir í sálma og Bach.
Seinnipartinn var börnunum skipt í hópa og svo var farið út í ratleik. Hann barst um víðan völl, um Skálholtsdómkirkju, safnið í kjallrarnum, út undirgöngin, yfir á fornleifasvæðið sunnan við kirkjuna og inn í Þorláksbúð. Börnin svöruðu spurningum og leystu ýmsar þrautir. Hver þraut gaf stig og í lok dags stóð eitt lið uppi sem sigurvegari.
Í lok dags leiddi Pétur kyrrðarstund inni í Skálholtsdómkirkju. Áður en börnin héldu heim fengu þau skúffuköku á veitingastaðnum, og þá var niðurstaðan úr ratleiknum kynnt og sigurvegarar fengu verðlaun.
Við þökkum hópnum frá Kópavogskirkju kærlega fyrir komuna og látum myndirnar tala sínu máli.
Comments