,,Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá jafnt börn sem fullorðna til þess að gleðja börn, sem lifa við; fátækt, sjúkdóma, stríð og erfiðleika, með því að gefa þeim jólagjafir.
Hægt er að taka þátt í verkefninu með því að útbúa skókassa skv leiðbeiningum hér að neðan og koma honum í Skálholt í síðasta lagi 7. nóvember nk. Tengiliður vegna verkefnisins er Bergþóra Ragnarsdóttir djákni (bergthora@skalholt.is)
Fyrir tuttugu árum síðan, fyrir jólin 2004 ákvað ungt fólk innan KFUM og KFUK að fara af stað með þetta verkefni hér á landi. Fyrstu jólin söfnuðust 500 gjafir og hefur það nær tífaldast í gegnum árin. En um 5000 gjafir hafa safnast undandfarin ár.
Skókassarnir eru sendir til Úkraínu, en þar hefur í mörg ár verið erfitt ástand hjá mörgum – margir atvinnlausir og því mikil fátækt og eins og allir vita þá er búið að geisa stríð í landinu undanfarin tvö og hálft ár. Þörfin fyrir hverskyns aðstoð er því mikil. Skókassarnir frá Íslandi fara m.a. á munaðarleysingjahæli, barnaspítala og til einstæðra foreldra sem búa við sára fátækt. Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovkiy. Hann starfar með KFUM í Úkraínu og er sjálfboðaliðunum frá KFUM og KFUK innan handar þegar þau fara til Úkraínu með gjafirnar.
Hvernig á að ganga frá skókassanum?
1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
ATH! Hægt er að hafa samband við mig bergthora@skalholt.is ef þið viljið fá kassa hjá mér.
2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð fyrir strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur:
(3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Gott er að útbúa merkimiða á pakkana.
3. Setjið 500-1.000 krónur efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.
Ég tek við kössum á skrifstofu prestakallsins alla virka daga og er síðasti skiladagur í Skálholti 7. nóv. nk. Einnig er um að gera að nýta tækifærið og koma með tilbúna kassa í sunnudagsmessu Skálholti.
Gjafir í skókassana
Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka:
• Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
• Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
• Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að ALLIR láti; tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassann sinn. Einnig má setja greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
• Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
• Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.
Hvað má EKKI fara í skókassana?
• Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.
• Matvara.
• Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.
• Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.
• Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
• Brothættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.
• Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.
Athugið!
Ef þú vilt getur þú sett fallega kveðju í jólakorti og/eða fallega mynd frá Íslandi efst í kassann.
Bestu kveðjur,
Bergþóra Ragnarsdóttir, djákni í Skálholtsprestakalli.
Hér má sjá myndir af facebook síðu KFUM og K af afhendingu skókassa í Úkraínu frá í fyrra.
Comments