top of page

Forseti Íslands flytur hátíðarerindi á Skálholtshátíð

Updated: Jun 10

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forsetafrú Eliza Reid, sækja Skálholtshátíð sem verður helgina 20. - 21. júlí. Mun Guðni forseti flytja hátíðarerindi í hátíðardagskránni sem haldin er eftir hátíðarmessuna og kirkjukaffið. Aðal efni hátíðarinnar er að minnast þess að 75 ár eru frá fyrstu Skálholtshátíðinni sem Skálholtsfélagið stóð fyrir árið 1949. Sú hátíð var haldin í gömlu sóknarkirkjunni sem tekin var ofan nokkrum árum síðar til að hægt yrði að stunda einn mesta fornleifauppgröft sem gerður hafði verið á heimatorfu Skálholts. Sú kirkja hafði geymt alla þá merku gripi og innréttingar sem fóri að hluta til í núverandi dómkirkju.


Á hátíðinni verður litið yfir sigra á vegi endurreisnar Skálholtsstaðar og þá um leið litið yfir farinn veg frá allra fyrstu Skálholtshátíðinni í eldri hefðinni allt frá því að bein Þorláks helga Þórhallssonar voru skrínlögð 20. júlí 1198 en 29. júní sama ár hafði Páll biskup Jónsson lýst hann helgan mann á Alþingi og áheit voru leyfð á Þorlák.


Þorláksmessa á sumar, 20. júlí, var áður einn mesti helgidagur í Skálholtsstifti og hefur svo einnig verið að Skálholtshátíð er mesta hátíð í Skálholti ár hvert eftir stofnun Skálholtsfélagsins og endurreisn staðarins.


Hátíðarmessa á Skálholtshátíð hefst kl. 14 og eftir kirkjukaffi verður hátíðardagskráin í Skálholtsdómkirkju kl. 16. Allir eru hjartanlega velkomnir og standa vonir til að kirkjunnar fólk og aðrir unnendur Skálholts komi og taki þátt í þessum mesta viðburði hins mikla helgi- og sögustaðar þjóðarinnar allrar.





11 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page