Páskahátíð í Skálholtsprestakalli 2025
- Herdís Friðriksdóttir
- 14 hours ago
- 1 min read
Skálholtsprestakall býður söfnuðum sínum og gestum velkomin til messuhalds og helgihalds yfir páskahátíðina með fjölbreyttri dagskrá í kirkjum Skálholtsprestakalls. Í Skálholtsdómkirkju og öðrum sóknarkirkjum verður boðið upp á trúarlega upplifun, fallega tónlist og helgihald sem heiðrar dýpstu merkingu páskahátíðarinnar.
Á Skírdag, 17. apríl, fer fram Getsemanestund í Skálholtsdómkirkju kl. 20, þar sem síðasta kvöldmáltíðin og afskrýðing altarisins eru í forgrunni og gengið út í þögnina. Skálholtskórinn syngur og sr. Kristján Björnsson vígslubiskup þjónar fyrir altari.
Á Föstudaginn langa, 18. apríl, verður píslasagan lesin í Skálholtsdómkirkju með sálmum sr. Hallgríms Péturssonar. Skálholtskórinn syngur kórverk. Þetta er djúp og áhrifarík stund, þar sem tónlist og orð sameinast í hugleiðingu um þjáningu Krists.
Páskadagur, 20. apríl, hefst með helgistund við sólarupprás kl. 5:55 við kórgaflinn í Skálholti. Þar á eftir verður árdagsmessa í kirkjunni kl. 8. Eftir messuna verður boðið verður upp á morgunverð á Veitingastaðnum Hvönn í boði staðarins. Kl 14 verður hátíðarmessa og ferming í Skálholtsdómkirkju þar sem Skálholtskórinn syngur hátíðarsöngva.
Á Páskadag verða fjölmargar hátíðarmessur haldnar í prestakallinu, þar á meðal í Miðdalskirkju kl 11, Þingvallakirkju kl 14, og Úthlíðarkirkju kl 16.
Á annan í páskum, 21. apríl, lýkur helgihaldinu með páskamessu í Haukadalskirkju kl. 14.
Við hvetjum alla, heimamenn jafnt sem gesti, til að taka þátt í þessari hátíðlegu vegferð sem leiðir okkur frá þögn Getsemane að gleði páskadags. Hvert helgihald býður upp á einstaka stund fyrir sál og samhygð í samfélagi kirkjunnar.
Verið hjartanlega velkomin – gleðilega páska!
Nánari upplýsingar um hverja messu má finna undir viðburðir á www.skalholt.is
Comentarios