Skálholtskirkja í sýndarveruleika
- Herdís Friðriksdóttir
- Jul 12, 2024
- 2 min read
Nú er hægt að skoða myndir innan úr Skálholtskirkju í þrívíddar sýndarveruleika.
Hermann Valsson tók myndirnar í febrúar sl en þær sýna Skálholtskdómkirkju, kjallara kirkjunnar, undirgöng, fornleifasvæði og Þorláksbúð.
Með því að elta hringi í gólfinu er hægt að fara um alla kirkjuna. Hægt er að ganga meðfram útveggjum og skoða glugga Gerðar Helgadóttur í návígi. Þá er hægt að fara alveg upp að altari og skoða altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Hægt er að fara upp í predikunarstólinn og fá útsýni prestsins yfir kirkjuna. Einnig inn í Maríustúkuna og skoða þá mörgu gripi sem kirkjan geymir. Hægt er að fara upp á efri svalir og fá útsýni yfir kirkjuna og ganga niður tröppurnar og skoða safnið í kjallara kirkjunnar.
Niðri á safninu er hægt að skoða steinkistu Páls Jónssonar og þá legsteina sem fundst við uppgröftinn sem Kristján Eldjárn stýrði í Skálholti á árunum 1954-1958. Úr safninu er farið um undirgöngin frá 11. öld þar sem talið er að þeir Gissur Þorvaldsson og Órækja Snorrason hafi barist á Sturlungaöld.
Úr göngunum er gengið upp á pallinn við forleifasvæðið sem grafið var upp af Fornleifastofnun Íslands á árunum 2002 - 2007. Þar sem myndirnar eru teknar í febrúar er svæðið snævi þakið en myndirnar sýna fallegt útsýni yfir Vörðufell, en það er einmitt fjallið Páll Jónsson biskup sendi menn sína til að sækja hnullung til að útbúa sér steinkistu í lok 12. aldar.
Að lokum er hægt að ganga til vinstri frá altari kirkjunnar út að Þorláksbúð. Hægt er að ganga inn í búðina og njóta þess að sjá fagurlega smíðaða búðina að innan. Gunnar Bjarnason hafði veg og vanda að smíði Þorláksbúðar sem var byggð árið 2011.
Auk þess að skoða þessar fallegu byggingar að innan er hægt að skoða fallegt landslag og umhverfi Skálholtsstaðar.
Comentários