top of page

Söfnun í flygilsjóð Skálholtsdómkirkju í fullum gangi.

Updated: Dec 25, 2024

Söfnun í flygilsjóð Skálholtsdómkirkju er nú í fullum gangi.  Þegar hefur safnast vænn sjóður, aðallega frá Kirkjusjóð Laugarvatns en einnig með frjálsum framlögum sveitunga og tónleikagesta, og eru nú rúmar 6 milljónir í sjóðnum. Jón Bjarnason organisti í Skálholtsdómkirkju stýrir verkefninu en stefnt er að því að kaupa flygil í hæsta gæðaflokki í kirkjuna og því verður Steinway fyrir valinu.


Hægt er að leggja verkefninu lið með því að gefa í flygilsjóð kirkjunnar; 0133-15-001647 á kennitölu 610172-0169.


Nýverið hlaust styrkur úr Uppbyggingasjóð Suðurlands sem nýtist til að halda fjáröflunartónleika í kirkjunni þar sem allur ágóði rennur í Flygilsjóðinn. Fyrstu tónleikarnir verða miðvikudaginn 11. desember kl 20.00 þar sem fjórir uppsveitakórar sameinast í hátíðlegum jólatónleikum.


Skálholtsdómkirkja hefur nýlega hlotið gagngera yfirhalningu og er nú sem ný kirkja.  Kirkjan hefur sterka stöðu sem miðstöð ýmissa viðburða á kirkjulegum vettvangi auk þess að vera vinsæl fyrir kirkjulegar athafnir og tónleika. Við kirkjuna starfa nú prestur, djákni, organisti auk vígslubiskups. Skálholtskórinn á heimili í kirkjunni en saga kórsins er löng og starf hans hefur skapað mikla tónlistarhefð í uppsveitum Árnessýslu.


Löngu er tímabært að Skálholtsdómkirkja eignist gæða flygil en þar er hljómburður einn sá besti á landinu og er kirkjan talin vera eitt besta sönghús landsins. Flygill í Skálholtsdómkirkju myndi lyfta kirkjunni á hærri stall sem tónlistarhúsi og stórauka fjölbreytni öflugs tónlistarlífs í Skálholti. Menningarflóra Suðurlands myndi blómstra og gestum kirkjunnar myndi fjölga enn frekar. 


Mikil aukning hefur orðið á tónleikahaldi í kirkjunni og er orðin sívaxandi þörf á slíku hljóðfæri. Fjölmargir kórar,  íslenskir sem erlendir, sækjast eftir því að koma fram í Skálholti. Mörg kórverk eru skrifuð fyrir kór með píanóundirleik og hefur því oft verið notast við rafmagnshljóðfæri af misjöfnum gæðum og töluverðum tilfæringum.

Ljóst er að með tilkomu flygils mun helgi- og tónlistarhald Skálholtsdómkirkju fá á sig enn fegurri og fjölbreyttari blæ auk þess sem staða Skálholtsdómkirkju mun styrkjast enn frekar sem tónlistarhús og menningarmiðstöð á Suðurlandi.


Flygilinn sem verður af Steinway tegund kostar í  dag um 20 milljónir króna, með flutningi og stillingu. Enn vantar því um 13 milljónir til þess að fullfjármagna  þessa framkvæmd.



 
 
 

Comments


bottom of page