top of page

Vígslubiskup vísiterar Kjalarnessprófastsdæmi

Updated: Jun 10, 2024

Reglulega fer vígslubiskup um prófastsdæmi í umdæminu og vísiterar. Þar gætir hann sérstaklega að safnaðarstarfi og helgihaldi og er liður í því að messa á sem flestum kirkjum og eiga fundi með starfsfólki, prestum, djáknum og sóknarnefndum. Á mörgum stöðum sækir hann einstaka þætti safnaðarstarfsins og er með í kyrrðarstundum, samverum eldri borgara, fermingarfræðslu, æskulýðsstarfi, kvenfélagsfundum, kóræfingum og í ýmsu helgihaldi sem er í gangi á þeim tíma sem hann fer yfir. Núna vísiterar sr. Kristján Björnsson Kjalarnessprófastsdæmi eftir langt hlé sem varð í heimsfaraldrinum.

Af þessum sökum hefur sr. Kristján ekki haft tök á því að messa jafn mikið heima í Skálholti og venjulega er. Næsta messa sr. Kristjáns í Skálholti verður sunnudaginn 17. mars kl. 11 einsog segir frá á öðrum stað á heimasíðunni.

Sunnudaginn 4. febrúar er vísitasíumessa í Garðakirkju á Álftanesi kl. 11, Sunnudaginn 25. febrúar er vísitasíumessa að Útskálum í Garði kl. 17. Sunnudaginn 3. mars er vísitasíumessa í Reynivallakirkju á Kjalarnesi kl. 14. Fyrsta vísitasíumessan í Kjalarnessprófastsdæmi var í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði sunnudaginn 26. mars 2023 og var það jafnframt 35 ára vígsluafmæli Víðistaðakirkju. Vísitasíumessum er lokið í Keflavíkurkirkju, Bessastaðakirkju, Lágafellskirkju, Hafnarfjarðarkirkju, Ástjarnarkirkju og Ytri - Njarðvíkurkirkju. Vísitasía í Grindavík bíður vegna óvissu í áfalli bæjarins en verður ákveðin síðar og þá í hvaða kirkju. Vonandi getur það orðið í Grindavíkurkirkju ef jörðin kyrrist og aðstæður skapast en annars í kirkju þar sem sóknarpresturinn og söfnuðurinn kemur saman á öðrum stað í prófastsdæminu. Eftir er að ákveða með vísitasíu í Fríkirkjuna í Hafnarfirði.



Comments


bottom of page