Sá siður er gamall að koma saman árla dags á páskadag og fagna upprisunni. "Herrann lifir, höldum páska!" Það er sigur lífsins á dauðanum. Sigur ljóssins. Fyrsta guðsþjónusta verður utandyra austan við hákórinn og er þá sunginn guðsþjónusta sem hefst um korter gengin í sjö því búist er við sólarupprás um kl 06.15. Þessi stund hefur um árabil verið höfð við Þingvallakirkju en færist í ár á grunninn undir altari miðaldakirkjunnar í Skálholti.
Hátíðarmessa verður í Skálholtsdómkirkju kl. 8.00 inni og þá "Rís og brosir röðull nýr." Eftir hátíðarmessuna verður morgunverður inní Skálholtsskóla, á veitingastaðnum Hvönn, rúnstykki og vínarbrauð, í boði Skálholtsstaðar. Er það áralöng hefð sem nú er endurvakin eftir takmarkanirnar sem voru í heimsfaraldrinum og í fyrra vegna viðgerða innandyra í kirkjunni. Páskaeggjaleit verður fyrir börnin í garðinum við Hvönn.
Prestur í athöfninni við sólarupprás er sr. Axel J. Árnason Njarðvík. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, þjónar fyrir altari og prédikar í hátíðarmessunni kl. 8 og Jón Bjarnason er organistinn. Meðhjálpari er Elínborg Sigurðardóttir. Umsjón með morgunkaffinu hafa Bjarki Sól og Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir hjá Hótel Skálholti ásamt starfsfólki þeirra.
Fyrir hátíðarmessuna er altari dómkirkjunnar orðið skrýtt að nýju en það er afskrýtt við Getsemanestund í lok messunnar sem hefst kl. 20 á skírdagkvöldinu og er afskrýtt í guðsþjónustunni kl. 16 föstudaginn langa. Fyrir þessar messur allar verður Jón Bjarnason með orgeltónleika miðvikudaginn 27. mars kl. 20 og spilar þar perlur tónlistar um passíu Jesú Krists. Verið velkomin í allar þessar stundir.
Til að fullkomna hátíð páskanna er hátíðarmessa í Skálholtsdómkirkju kl. 14 á páskadag þar sem Skálholtskórinn syngur og Jón Bjarnason leikur á orgelið. Á sama tíma verður hátíðarmessa í Þingvallakirkju. Aðrar messur í prestakallinu verða auglýstar í heild hér á síðunni þegar nær dregur.
Comments