Kirkjurnar í Skálholti
Gissurarkirkja hvíta 1000 – 1082
,,Gizur hvíti lét gjöra hina fyrstu kirkju í Skálholti" segir í Hungurvöku. Sú kirkja varð dómkirkja Íslendinga um leið og Ísleifur sonur Gissurar varð biskup 1056. Þessi fyrsta kirkja í Skálholti hefur sennilega risið skömmu eftir kristnitökuna árið 1000 og verið lítil, jarðgrafin timburkirkja. Kirkjan hefur líklega orðið 80 ára gömul.
Gissurarkirkja biskups 1082 - 1153
Gissur Ísleifsson var afabarn Gissurar hvíta. Hann tók við sem biskup af föður sínum Ísleifi Gissurarsyni. Í Hungurvöku segir: „Gizur biskup sonur Ísleifs reisti nýja kirkju ,,þrítuga (60 m) að lengd og vígði Pétri postula. Gizur lagði dómkirkjunni Skálholts land til ævarandi biskupsseturs og kvað svo á, að þar skyldi ávallt biskupsstóll vera meðan Island er byggt og kristni má haldast.“ Kirkja Gissurar stóð í um hálfa öld en Magnús Einarsson biskup á að hafa endurbætt hana og stækkað töluvert. Kirkjan stóð til ársins 1153.
Klængskirkja 1153 -1309
Klængskirkja var stærst kirkna í Skálholti en
Klængur biskup Þorsteinsson (1152-76) lét reisa hana af grunni. Í Hungurvöku segir; ,,A tveim skipum komu út stórviðir þeir, er Klængur lét höggva í Noregi til kirkju þeirrar, er hann lét gjöra í Skálholti, er að öllu var vönduð fram yfir hvert hús annað, þeirra, er á Íslandi voru gjör, bæði að viðum og smíði." Kirkjan var helguð Pétri postula eins og fyrri kirkja og var hún vígð 15. júní 1153.
Þessari kirkju þjónaði Þorlákur helgi Þorláksson á árunum 1178-93, en Þorlákur færði kirkjunni glerglugga sem settur var upp í kirkjunni.
Klængskirkja brann 1309 þegar eldingu laust í stöpulinn.
Árnakirkja 1310-1527
Árni Helgason biskup (1309-20) lét byggja nýja kirkju, vígð 1311. Fé hafði verið safnað um allt land til byggingar hennar. Þessi kirkja brann í tíð Ögmundar Pálssonar, síðast kaþólska biskupsins í Skálholti, var það árið 1526. Ögmundur hófst þegar handa um aðdrætti til nýrrar kirkju. Gáfu margir menn, lærðir og leikir, mikið fé til kirkjunnar. Þótti hin nýja dómkirkja vegleg og tilkomumikil, þegar hún var komin upp. Síðan hefur kirkja ekki brunnið í Skálholti. Árnakirkja brann sumarið 1526/27 að talið er eftir að klerkur hafði farið óvarlega með glóðarkerti.
Ögmundarkirkja 1527 - 1567
Árnakirkja brann á biskupstíma Ögmundar Pálssonar en fyrsta verk hans eftir brunann var að láta reisa bráðabirgðaskýli yfir messuhald. Var það nefnt Búðin eða Kapellan en var síðar nefnt Þorláksbúð.
Talið er að sumarið eftir brunann hafi skip verið send til Noregs, nánar tiltekið til Björgvinjar, þar sem staðurinn átti skóga. Þar var sótt meira efni og var það sent í birgðageymslu Skálholts á Eyrarbakka. Þaðan var viðurinn fluttur af leiguliðum í Flóa, Grímsnesi, Skeiðum og Flóa heim í Skálholt. Stórtrén var dregin af nautum líkt og var í tíð Brynjólfs Sveinssonar. Ögmundarkirkja er talin hafa verið svipuð um stærð og gerð og Gíslakirkja.
Smíði kirkjunnar var síðasta stórvirki miðalda í byggingarlist, og ber dugnaði Ögmundar biskups Pálssonar gott vitni. Flest bendir til að miðaldakirkjurnar hafi verið stærstu kirkjurnar sem nokkru sinni hafi verið byggðar. Talið er að kirkjan hafi verið stærst af tréhúsum á Norðurlöndum
Talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 2784 kýrverð og var Ögmundur biskup skuldum vafinn er hann féll frá.
Gíslakirkja 1567 - 1650
Af Gíslakirkju eru engar úttektir til, engar myndir eða byggingarleifar, aðeins nokkur orð á stangli um tilurð hennar og byggingartíma. Grunnur sá sem grafinn var upp í Skálholti 1954 var ekki undan Ögmundarkirkju heldur Gíslakirkju.
Brynjólfskirkja 1650 - 1802
Þegar Brynjólfur Sveinsson Biskup tók við Skálholtsstað og stóli árið 1639, var staður og kirkja í hrörlegu ástandi en hann uppbyggði hvort tveggja stórmannlega og sterklega með miklum kostnaði.
Jón Halldórsson prófastur lýsti byggingu kirkjunnar svo:
"Fékk og tilflutti ekki einasta þá bestu rekaviðu, sem hann kunni að fá, heldur og einnig bestillti hann utanlands frá mikla viðu, svo annó 1646 kom hið síðara Eyrarbakkaskip nærri fullt með grenivið frá Gullandi sem kostaði yfir 300 ríxdali og hann ætlaði til kirkjubyggingarinnar. Hann fékk til kirkjusmíðsins hina bestu og röskustu smiði til að saga, höggva og telgja viðuna. Voru þeir stundum 30 eða fleiri, suma til að smíða úr 60 vættum járns, sem hann lagði til hákirkjunnar í gadda, reksaum og hespur. Ekki hefur nú á síðari tímum rambyggilegra hús og af betri kostum verið gert af tré hér á landi en sú Skálholtskirkja"
Þessi vandaða og veglega kirkja stóð af sér landskjálftana 1784, sem lagði öll önnur hús staðarins í rústir. Að stofni til stóð Brynjólfskirkja allt til ársins 1850, þá orðin 200 ára. þrátt fyrir slægtlegt viðhald á stundum.
Valgerðarkirkja 1802 - 151
Árið 1775 var Skálholtsstóll og - skóli lagður niður með konungsbréfi. Skálholtskirkja varð nú útkirkja, fyrst frá Torfastöðum í Biskupstungum og síðar frá Ólafsvöllum á Skeiðum og enn síðar frá Torfastöðum aftur.
Í fyrrnefndu konungsbréfi var fyrirskipað að selja stólseignirnar hæstbjóðanda, og keypti Hannes biskup Finnsson Skálholt með öllum gögnum þess og gæðum og þar með talin dómkirkjan gamla. Eftir lát Hannesar 1796, bjó ekkja hans frú Valgerður Jónsdóttir áfram í Skálholti. Á árunum 1802 - 04 lét hún gera kirkjuna upp, "bæði af gömlum viðum úr hinni fornu dómkirkju og nýjum" eins og komist er að orði prófast vísitasíu frá 1805. Hinir nýju viðir voru 150 borð sem þakið var bætt með. Viðgerðir virðist að öðru leyfi hafa verið fólgin í því að rjúfa útbrot og turn. Við það breytti kirkjan um útlit en virðist þó hafa haldið reisn sinni, ef dæma skal af þeirri einu mynd, sem til er af henni frá þessum tíma og er er sýnd. En örlög hinnar öldu kirkju urðu ekki umflúin. Í vísitasíu biskups frá árinu 1848 er kirkjan talin svo "stórgölluð að valla er messufær í misjöfnu veðri, Eru bæði bitar og borð fúin og rifin, svo út sér, en kirkjan sjálf svo niðursokkin að stafirnir liggja undir skemmdum. Mætti þó mikið nota af stórviðum kirkjunnar, þá hún er byggð aftur."
Kirkju Brynjólfs biskups hefur vissulega ekki verið fisjað saman, og gæti vafalaust staðið enn í dag ef rækt hefið verið við hana lögð. Það er fyrst 1850 að hún verður að víkja fyrir nýrri kirkju, miklu minni, sem byggð var aðeins á hluta hins forna dómkirkjugrunns.
Sóknarkirkjan 1851 - 1963
Lítil timburkirkja var byggð á hluta hins forna kirkjugrunns Skálholts á árunum 1851-52. Árið 1862 er kirkjan komin í einkaeigu. „Hún á ekkert í jörðu og engin kúgildi. Rekaítök þau öll og ítök, er hún áður hefur átt, eru nú öll frá henni seld.“ Árið 1910 var henni lýst sem svo: „Kirkjan er fornleg orðin, krosslaus, altaristöflulaus, óvegleg að flestu og yfirleitt ekki samboðin kirkju, síst á þessum stað“. Um svipað leyti lagði sóknarnefnd Skálholtskirkju til að þess að Skálholti var bjargað sem kirkjustað og „að Skálholtskirkja sé endurreist og henni sýndur allur mögulegur sómi í byggingu og prestþjónustu“. 40 árum síðar vék gamla sóknarkirkjan fyrir nýrri og veglegri kirkju.